miðvikudagur, október 27, 2004

Byrjun á Bloggi

Jæja þá hef ég ákveðið að hella mér út í bloggið og reyna að segja ykkur fréttir frá Austurlandi.

Eins og flest ykkar sem þetta lesið vita, þá er ég staddur á Egilsstöðum vegna vinnu minnar. Ég er að vinna að Fjarðaál verkefninu fyrir HRV verkfræðiþjónustu. HRV stendur fyrir Hönnun, Rafhönnum og að sjálfsögðu VST.
Á meðan það er verið að byggja starfsmannaþorp og reisa skrifstofur á Reyðarfirði þá hef ég aðstöðu í útibúi VST á Egilsstöðum. En þegar allt verður reddí á Reyðó þá neyðist ég til að flytja þangað líka. Reyðarfjörður er 650 manna þorp sem er að fara að stækka umtalsvert næstu árin. Starfsmannaþorpið sem verið er að reisa á að taka 1800 mann eða tæplega þrefalt fleiri en búa á Reyðarfirði og verður í ca. 1 km frá bænum.
Núna er ég byrjaður á 10/4 vaktakerfinu þ.e. vinna í 10 daga og frí í 4. Þetta er auðvitað allllllt of langur tími sem maður er að heiman en við ætlum að láta okkur hafa það í smá tíma. Það er jú aðeins meira útborgað fyrir vikið og það er gott eftir 2 launalaus ár í útlandinu.
Það kom mér á óvart hvað Egilsstaðir er lítill bær. Hér búa ca 2500 manns og bærinn er lítill og hefur engan miðbæ. Miðbærinn er í raun planið á Söluskálanum, beint fyrir framan VST og má þá segja að ég sé með útsýni yfir miðbæinn. Talandi um útsýni þá er ég með virkilega gott útsýni frá skrifstofunni, "miðbæinn" auðvitað og Egilsstaði sem er sveitabær og gistiheimili og jafnfram elsta hús bæjarins, byggt um miðja síðustu öld. Fellaheiðin og sjálft Lagarfljótið er hér til norðurs. Snæfell gnæfir uppúr í vestri og Höttur og Sanfell í suðri. Já það er virkilega skemmtilegt útsýni hérna og allt annað en maður vandist í Ármúlanum, þar sá maður ekkert annað en ljótu VÍS bygginguna.

Burtséð frá því að vera að heiman frá konu og börnum þá hef ég það ágætt á Austurlandinu, vinnan er skemmtileg og ég er í raun að gera annað en ég hélt að ég mundi gera. Ég átti bara að vera í landmælingum en er í dag með umsjón með þeim. Ég sit því bara á rassinum allan daginn að vinna úr og undirbúa verkefni fyrir mælingamennina. Þegar fram líða stundir býst ég samt við að vera meira útivið.

En látum þetta nægja í bili...

Hils að austan

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com