þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Smá upplýsingar

Sitjandi hérna horfandi yfir Lagarfljótið þá er ekki hægt annað en að vita e-ð um vatnið. Ég missti mig aðeins í upplýsingasöfnuninni og get hreinlega ekki látið vera með að deila því með ykkur!!
Lögurinn er eins og langflest stöðuvötn á Íslandi í jökulsorfinni dæld. Það er lengsta vatn landsins eða um 25 km að lengd. Það er 3. stærsta (ef undanskilin eru miðlunarlón) og 6. dýpsta stöðuvatn landsins og nær um 90 m niður fyrir sjávarmál. Af því að ég minntist á miðlunarlón þá fór ég líka að spá í hversu stór þau eru og það landsvæði sem þau þekja. Landið allt er 103.000 km² og sé flatarmál allra lóna lagt saman nemur það um 0,25% af flatarmáli landsins ef Þórisvatn, er allt tekið með í reikninginn.
Lón og veitur eru því samtals um 260 km². Þórisvatn var þó að hluta stöðuvatn fyrir virkjanirnar þannig að í raun hafa einungis 22 km² þess farið undir lón við stækkunina. Sé þetta tekið með í reikninginn þá er það 0,18% landsins hafi farið undir virkjanir, eða 190 km².
Stærstu lónin eru annars þessi:
Þórisvatn - 92 km² (22 km², úr 70 í 92 km² )
Blöndulón - 57 km²
Hágöngulón - 34 km²
Kvíslárvatn - 24 km²
Sultartangalón - 20 km²
Krókslón - 14 km²
Hrauneyjalón - 9 km²
Gilsárlón - 5 km²
Þjórsárlón - 3,5 km²
Bjarnalón - 1 km²
Hálslón við Kárahnjúka verður 57 km² þegar það er fullt.

Miðlunarlón eiga því 4 fulltrúa á topp 10 listanum yfir stærstu stöðuvötn landsins.

Þórisvatn (vatnsmiðlun) 83-92 km²
Þingvallavatn 82 km²
Blöndulón (vatnsmiðlun) 57 km²
Lögurinn 53 km²
Mývatn 37 km²
Hágöngulón (vatnsmiðlun) 34 km²
Hvítárvatn 30 km²
Hópið 30 km²
Langisjór 26 km²
Kvíslavatn (vatnsmiðlun) 24 km²

Það held ég að Júlíus nokkur Hafstein fussi þegar hann sér þetta!

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com