þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Eldgos í Grímsvötnum

Eldgos hófst í Vatnajökli um kl. 22.00 í gærkvöldi. Þá gerði ákafur gosórói vart við sig eftir snarpa jarðskjálftahrinu í gærkvöldi. Þá sáust miklar eldglæringar frá Egilsstaðaflugvelli í nótt og þar var víst um mikið sjónarspil að ræða. Ég ætla að vona að það sjáist e-ð héðan frá svölum VST!
En aðeins um Grímsvötn:
Grímsvötn, í miðjum Vatnajökli vestanverðum, eru virkasta eldstöð á Íslandi og talin meðal öflugustu jarðhitasvæða heims. Í ritverkum frá 16. og 17. öld er talað um Grímsvötn sem nokkuð þekkt fyrirbrigði í Grímsvatnajökli. En á 18. og 19. öld virðast örnefnin sem tengdust Grímsvötnum hafa annaðhvort gleymst eða færst úr stað þannig að í þá tíð töldu menn Grímsvötn vera þar sem nú er Gænalón. Það var ekki fyrr en árið 1919 að tveir sænskir jöklafarar, Wadell og Ygberg, rákust á gríðarstóra öskju á leið sinni yfir Vatnajökul. Þeir dvöldu þar um tíma og mældu upp og teiknuðu þetta furðufyrirbrigði sem á leið þeirra varð. Nefndu þeir öskjuna Svíagíg.
Er talið að í Grímsvötnum hafi orðið yfir 50 eldgos frá því að land byggðist á Íslandi. Gosið sem hófst í gærkvöldi er hið þrettánda sem verður í Vatnajökli frá árinu 1902, þar af hafa tíu eldgos átt upptök sín í sjálfum Grímsvötnum, síðast árið 1998. Tveimur árum áður varð eldgos í Gjálp, sem telst til Grímsvatnasvæðisins.
Þetta finnst mér ægilega skemmtilegt.... Veit ekki hversu mörg ykkar sem hingað kíkið eruð sammála mér í því!

Grímsvötn í gosinu 1996 Posted by Hello
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com